Allt frá því María Antoinette stakk í barnslegri einlægni upp á þeirri lausn við hungursneyð Parísarbúa árið 1789, að seðja soltna munna með kökum, hefur bakkelsi leikið stórt hlutverk í öllu matarræði Frakka.
Þó svo að tillaga Maríu hafi fallið í grýttan jarðveg á sínum tíma og henni ekki enst ævin til frekara kökuáts, er aldrei auðveldara en nú að nálgast lungamjúk croissant eða gómsætar kökur á einhverju af óteljandi kaffihúsum og bakaríum Parísarborgar.
Láttu ekki slá þig útaf laginu þó einstaka þjónar virki yfirþyrmandi og jafnvel ruddalegir við störf sín. Þetta er bara þeirra leið til að viðhalda ákveðnum persónueinkennum sem Frakkar hafa í hávegum — sjálfstæðinu. Bara ef aumingja María hefði áttað sig á þessu.