Í Lególandi búa um átta þúsund manns — svonefndir Legókallar — og þar ríkir þægilegt loftslag. Yfir sumarmánuðina er meðalhiti í kringum 20°C (en reyndar notast Legókallar við svokallaðar legográður og samkvæmt þeim er meðalhitinn í ágúst um 100 gráður).
Lególand á landamæri að Danmörku og er mikill samgangur milli ríkjanna tveggja, og eftir því góðar samgöngur milli Billund og helstu borga Danmerkur. Svo vill reyndar til að flest sem Danir geta státað sig af er einnig til í Lególandi, þótt í smærri útgáfu sé. Legókallar eiga sína Amalíuborg, sína Nýhöfn og Sívalaturn. Og reyndar eiga þeir líka Frelsisstyttu og Taj Mahal, svo eitthvað sé nefnt.
Það er óþarfi að leita langt yfir skammt — Billund hefur það allt!