Eftir að Múrinn féll í lok kalda stríðsins og Berlín varð á ný höfuðborg sameinaðs Þýskalands hefur margt breyst. Nýbyggingar rísa á hverju götuhorni, stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar þangað og borgin er aftur orðin miðpunktur lista í Evrópu.
Skrautlegt næturlíf, klassísk þýsk næturklúbbamenning og listalíf í miklum blóma − svo miklum að það er varla íslenskur listamaður með sjálfsvirðingu sem ekki er á útgáfusamningi í Berlín. Ekki vera hissa þótt þú rekist á þá um borð hjá Iceland Express!
Berlín á vefnum:
Ef það er einhver bar í Berlín þar sem maður getur verið næsta öruggur um að rekast á Íslending þá er það á barnum 8mm við Schönhauser Allee 177B í Prenzlauer Berg. Raunar er ekki ólíklegt að það sé jafnvel Íslendingur sem þar þeytir skífum.
Einhverra hluta vegna hefur staðarhaldari bundist tryggðarböndum við Íslendinga og segir sagan að hlunninda sé jafnvel að vænta fyrir þá sem tilheyra þessum víkingakynstofni. Það er þó ekki selt dýrara en það er keypt.
Hvað sem því líður minnir stemmningin á 8mm um margt á stað eins og var á Sirkusi heim á Fróni; fólk í yngri kantinum, þröngt, hávært en gott og frjálslegt andrúmsloft ásamt oftast nær afar frambærilegri rokktónlist.
Þess ber einnig að geta að 8mm er líklega eini bar Berlínar þar sem hægt er að kaupa íslenskt brennivín og þar hefir hljómsveit líkt og Singapore Sling haldið tónleika þegar þau eru í bænum.
8mm er staðsettur við Senefelder Platz brautarstöðina og er það neðanjarðarlestin U2 sem þangað fer.
Ef þú hefur áhuga á að sjá mannslíkamann á röngunni, (í orðsins fyllstu merkingu), þá er Guben í Brandenburg rétti staðurinn. Þar er að finna verkstæði og safn Þjóðverjans Gunter Von Hagens, sem ber hið liðuga nafn: Plastinarium - Hinter den Kulissen der Körperwelt (bakvið leiktjöld líkamsheimsins).
Í Guben er meðal annara hægt að sjá pókerspilara, hástökkvara og hlaupara, alla við sína hefðbundnu iðju. Hljómar ekki merkilegt í fyrstu en verður strax mun áhugaverðara við þá staðreynd að fyrirsæturnar eru ekki í fullum skrúða.
Von Hagen hefur sem sagt sérhæft sig í því að sýna þá hluta mannslíkamans sem leynast undir húðinni, s.s. vöðva, sinar og bein og í Plastinarium er hægt að sjá bæði hvernig hann meðhöndlar viðfangsefnin og hver útkoman verður. Indælt!
Sýningar Von Hagens, Bodies: The Exhibition, hafa farið sigurför um heiminn. Ekki minni maður en sjálfur Bond … James Bond, skellti sér á sýningu í mynd sinni, Casino Royale og eins og allir vita hefur njósnari hennar hátignar einfaldan smekk og velur aðeins það besta.
Plastinarium er eingöngu opið um helgar. Frá föstudegi til sunnudags frá kl. 10.00 til 18.00.
Hvað var á dagskrá í sjónvarpinu í Austur Þýskalandi? Áttu allir sjónvörp? Hvað var hægt að kaupa í búðum og hvert fór fólk í fríum?
Þú getur fundið svörin við þessum spurningum og mörgum öðrum á DDR-Museum í Berlín. Þar er hvunndagurinn í gamla Austur Þýskalandi krufinn til mergjar — farið fimum höndum um fortíð lands og þjóðar og ekkert dregið undan, enda er markmiðið að gestir geti kynnst því hvernig lífið var í raun fyrir almenning þar.
Það sem gerir safnið enn sérstakara er að leyflegt er að snerta sýningargripina og meira að segja setjast upp í einn þeirra; Trabantinn (gamli góði Trabbinn klikkar aldrei).
Safnið sem var opnað árið 2006, er staðsett í Mitte, nánar tiltekið við Karl-Liebknecht-Straße, beint fyrir aftan dómkirkjuna (Berliner Dom), við bakka árinnar Spree.
DDR-safnið er opið alla daga frá 10.00 til 20.00 — enn lengur á laugardögum (22.00)
Daglega ferðast þúsundir manna með neðanjarðarlestum Berlínar en stöku sinnum býður BVG, fyrirtækið sem rekur lestirnar, upp á ævintýraferðir í gegnum göngin.
Vilji maður frekar skoða loftvarnarbyrgi, hvort sem er frá tímum þriðja ríkisins eða kalda stríðsins býður Berliner Unterwelten ferðir um þá undirheima. Upplifunin er sterk -- eina stundina stendur maður í sólríkum garði eða palli neðanjarðarlestarstöðvar, þá næstu umlykja mann margra metra þykkir veggir sem ætlað var að skýla þúsundum manna á meðan kjarnorkusprengjur eyddu öllu ofanjarðar.
Eitt stærsta kjarnorkubyrgið er í hjarta Vestur-Berlínar -- undir verslunarmiðstöð við Kurfürstendamm. Hægt er að skoða það á vegum The Story of Berlin. Þar væri enn hægt að hýsa 3500 manns, ef allt færi fjandans til.
Trabantinn er fyrir Berlín það sem Citroën braggi er fyrir París. Að sjá Berlín í gegnum gluggann á Trabant er eins og deila sígarettu með Keith Richards eða halda bolta á lofti með Maradonna eða hlaupa milli skotgrafa með Christiane Amanpour eða taka leigubíl hjá með Robert De Niro eða pússa klarinettið hans Woody Allen eða smyrja brauð með Jamie Oliver eða fá Leonard Cohen til að tala inn á talhólfið eða ræða um Lennon við McCartney eða deila pizzu með Sophiu Loren eða prófarkalesa Murakami.
Þið skiljið hvað við eigum við.
Trabi-Safari, níutíu mínútna Trabant safarí um götur Berlínar
Perlan í Berlín hvílir ekki ofan á hitaveitutönkum heldur ofan á sjálfu þinghúsinu. Reichstag er eitt besta dæmið um endurreisn borgarinnar. Héðan geta ferðamenn notið útsýnisins yfir borgina á meðan innfæddir fylgjast með þinggólfinu og gæta þess að þingmennirnir geri ekki neitt af sér.
Það er breski arkitektinn Norman Foster sem er ábyrgur fyrir endurbyggingunni en hann hannaði líka Stansted, eina flugvöll Breta sem ekki er teppalagður í hólf og gólf. Fyrir það á hann allt gott skilið.
Fyrstu helgina í ágúst streymir fólk á Karl-Marx-Allee til að gæða sér á heilli mílu bjór frá öllum heimshornum. Í sölutjöldunum er til dæmis að finna rússneskan, víetnamskan og tékkneskan bjór, svo nokkur dæmi séu nefnd. Þegar við bætast hundruð þýskra bjóra eru í heildina á annað þúsund tegundir í boði, þannig að tímann þarf að nýta vel.
Milli bjórtjaldanna eru þýskir kántríslagarar sungnir af miklum móð og boðið upp á pylsur (allt að hálfum metra að lengd), steikur, núðlur og það þýskasta: Brezel.
Varúð: Hingað má enginn hætta sér sem er hræddur við að sjá Þjóðverja með sítt að aftan skemmta sér.
Eftir að búið er að nota annan hlutann til að leggja vegi og selja ferðamönnum hinn er ekki mikið eftir af Berlínarmúrnum sem féll í beinni útsendingu í nóvember 1989.
Lengsti hluti hans sem ennþá er í heilu lagi er 1,3 km langur og gengur undir nafninu East Side Gallery. Eftir að 118 listamenn alls staðar að úr heiminum mættu á staðinn með pensla og málningu árið 1990 telst galleríið vera stærsta safn heims undir beru lofti. (Besta myndin er örugglega af sögufrægum kossi kommúnistaleiðtoganna Honeckers og Brezhnevs.)
Frá 1990 hefur hins vegar margt annað sett mark sitt á galleríið, til dæmis hefur það verið vinsælt meðal fólks með tússpenna og spreybrúsa. Frelsið er yndislegt, ekki satt?
Þú pakkaðir vindlaklippunum og ferð því beinustu leið á Newton bar. Situr hjá allt spilið og reykir fínustu vindlana, drekkur besta víiskíð og starir á risastórar myndir af allsberum fyrirsætum frá níunda áratugnum. Enda er barinn kenndur við einn þekktasta ljósmyndara Þjóðverja, Helmut Newton, sem var þekktur fyrir annað en að taka myndir af Berlínarbollum.
Ef þér finnst svalur djass vera betri en svarthvítir draumar og þekkir muninn á Coltrane og Ellington þá er A-Trane staðurinn. Unnendum kampavínskokteila (rétt-upp-hend) ætti hins vegar að vera óhætt á Riva.
Frá því Brandenborgarhliðið var reist á árunum 1788-91 hafa margir herir marsérað þar í gegn. En frá því múrinn féll árið 1989 hefur mesti hasarinn líklega verið þegar Love Parade fer um einu sinni á ári.
Þetta eina uppistandandi borgarhlið í Berlín var tekið í gegn árið 2002 og meðan á HM í fótbolta stóð það ár voru súlurnar klæddar í risastóra fótboltasokka.
Hlutirnir eru nú aftur komnir í eðlilegt horf og hliðið er aftur orðið að tákn borgarinnar og sameinaðs Þýskalands.
Ef þú þurftir að fara milli Vestur- og Austur-Berlínar meðan á kalda stríðinu stóð þurftirðu að fara um landamærastöðina Checkpoint Charlie.
Það er lítið eftir af henni núna nema endurbyggður skúr og skiltið fræga sem segir: "Þú ert núna að yfirgefa bandaríska svæðið".
Stutt frá er líka Haus am Checkpoint Charlie sem kallar sig fyrsta safnið til heiðurs alþjóðlegum friðsamlegum mótmælum, og segir sögu þeirra sem dóu eða voru fangelsaðir þegar þeir reyndu að fara frá austri til vesturs.
Þegar stigið er inn á White Trash Fast Food [flickr] bera innréttingarnar þess merki að hér hafi írskur bar eitt sinn verið til húsa. Ef undan eru skyldar austurlensku skreytingarnar sem prýða loft, veggi og gólf.
Matseðill staðarins ber keim af þessu fjölbreytta andrúmslofti sem einkennir innréttingarnar. Ásamt úrvali af forréttum og súpum ber þar helst að nefna hamborgarana alræmdu, til dæmis Elvis-borgarann með cheddar-osti, súrkáli, beikoni og BBQ-sósu. Við erum sannfærð um að betri hamborgari fáist ekki austan múrsins.
En White Trash Fast Food er ekki bara skyndibitastaður. Hér þeyta plötusnúðar skífum á hverju kvöldi og linna ekki látum fyrr en í morgunsárið.
Skilaboð White Trash Fast Food eru einföld: Við mælum með drykkju. Hún er góð fyrir þig og lætur fólki líka vel við þig. En það sem meira máli skiptir: hún gerir það að verkum að þú átt auðveldara með að láta þér líka við annað fólk.
White Trash Fast Food Restaurant & Club, Schönhauser Allee 6-7
Ekki alls fyrir löngu voru dimm kaffihús með vatnspípum og kotruspili einkum ætluð fyrir borgarbúa af tyrkneskum ættum. Nú eru slíkir staðir nýjasta viðbótin í hið fjöruga skemmtanalíf borgarinnar.
Á kaffihúsinu Al Hamra í Prenzlauer Berg er arabísk stemning í algleymingi. Gestum gefst kostur á að prófa vatnspípu með ýmsum bragðtegundum, te með ferskum jurtum, heimagert límonaði og ljúffenga smárétti úr austri sem svíkja engan. Í bakgrunninum hljómar notaleg tónlist og gamlir sófar gefa staðnum heimilislegan blæ.
Sum kvöld býður Al Hamra upp á ýmsa afþreyingu, svo sem kvikmyndasýningar, bingó og tónleika. Önnur kvöld er tilvalið að tefla, spila kotru eða bara spjalla. Fyrir þá sem kjósa nútímalegri aðferðir í þeim efnum er hægt að kíkja á internetið fyrir tiltölulega lágt verð, annaðhvort í tölvum staðarins eða gegnum þráðlaust net.
Á heitum sumardögum getur verið gott að komast úr erli stórborgarinnar og slappa af í rólegum og skjólsælum bjórgarði. Til þess er Prater-bjórgarðurinn við Kastanienallee tilvalinn.
Í 170 ár hefur Prater opnað hlið sín fyrir bjórþyrstum Berlínarbúum og er þar með elsti bjórgarður borgarinnar. Sex hundruð manns komast fyrir á bekkjunum og yngstu gestirnir geta dundað sér á litlu leiksvæði meðan þeir eldri gæða sér á heimagerðum Prater-bjór og þýskum skyndibita.
Garðurinn er opinn frá apríl til september og á góðviðrisdögum byrjar bjórinn að flæða á hádegi. Eftir því sem líður á daginn fjölgar gestunum og á hlýjum kvöldum eru bekkirnir þröngt setnir. Þröngt mega sáttir sitja, enda eru ósáttir gestir sjaldséðir á Prater.
Ef það er eitthvað sem námsmenn eru hrifnari af en ódýr bjór þá er það líklega lág húsaleiga. Eftir að múrinn féll sameinaði Friedrichshain hverfið í austurhlutanum þetta tvennt og hverfið varð fljótt vinsælt meðal stúdenta og listamanna.
Nú, rúmum sextán árum síðar hefur Friedrichshain gengið í gegnum miklar breytingar og Simon-Dach-Strasse er eitt besta dæmið um það. Í götu þar sem varla nokkur maður fór um ótilneyddur hafa skemmtistaðir nú stungið upp kollinum eins og fíflar að vori og nú má finna kokteilbar, krá eða kaffihús í nánast hverju húsi.
Sum þeirra skera sig úr fjöldanum með óvenjulegum innréttingum, eins og Astro Bar með geimskutlu- og vélmennaskreytingum sínum, en aðrar leggja meira upp úr úrvali af hanastélum og heitum réttum, eins og til dæmis Café 100 Wasser.
Google Maps: Simon-Dach-Strasse í Friedrichshain