Svisslendingar áttu líka sinn Ásmund Sveinsson (hann hét reyndar ekki Ásmundur þar, heldur Jean Tinguely). Fyrir vikið eiga Baselbúar sína útgáfu af Ásmundarsafni — Museum Tinguely.
Listaverkin í Museum Tinguely bera skapara sínum það vitni að hann hafi klárlega haft ímyndunarafl yfir meðallagi — minna nokkuð á verkfræðitilraun sem farið hefur úrskeiðis.
Flest verkin eru á stöðugri hreyfingu og allir mega hreyfa við þeim. Það ætti þess vegna að vera óhætt að sleppa börnunum lausum en athugið þó að ábyrgðartrygging vegna gríslinganna er ekki innifalin í miðaverðinu.
Basel verður ekki lýst í einu orði – og lýsingar eins og „menningarhöfuðborg“ eða „háskólabær“ eru lítið meira en veikburða tilraunir til að gefa hugmynd um hvað mannlíf borgarinnar hefur að geyma!
Eitt það skemmtilegasta við borgina er að, þó hún sé svissnesk, hefur hún úthverfi bæði í Þýskalandi og Frakklandi. Hún er svo nálægt landamærunum þessara þriggja landa að meira að segja flugvöllur hennar er í raun í Frakklandi. Blessunarlega þarf þó ekki vegabréf til að ferðast á milli hverfa! Borgin er byggð á Rínarbökkum, og er þar í hópi borga eins og Strasbourgar, Kölnar, Düsseldorf, Rotterdam og fleiri.
Sökum einstakar staðsetningar er Basel suðupottur mismunandi menningarheima. Í borginni búa um 170.000 manns, sem er svipað og á höfuðborgarsvæði Íslands, en þó er þar að finna um 25 leikhús og 40 söfn! Á stór-Basel svæðinu búa þó reyndar um 850.000 manns – og er borgin sú þriðja fjölmennasta í Sviss, og svæðið hið annað fjölmennasta
Á hverjum degi er eitthvað um að vera svo fólk með mismunandi smekk ætti auðveldlega að geta svalað sínum mannlífsþorsta í sömu ferð. Allt frá listsýningum og fyrirlestrum yfir í leikhús og söngleiki, yfir í mannlífið og markaðina á götunni er Basel óvenjuleg og áhugaverð borg.
Þá er ekki úr vegi að minnast á matarmenningu borgarinnar sem, aftur – sökum legu borgarinnar, er sambland þriggja þjóða. Hvort sem þú vilt setjast niður á fínum, hefðbundnum veitingastað – eða á nýjum og trendí klúbbum; hvort sem þú ert grænmetis- eða kjötæta og hvort sem þú vilt þjóðarrétti eða fjúsjón: Verði þér að góðu!