Þrátt fyrir að hið spænska cava sé ef til vill í hefðbundnum skilningi ekki jafn heimsborgaralegur drykkur og kampavín, og sjáist að öllum líkindum sjaldnar í tónlistarmyndböndum bandarískra rapptónlistarmanna, geta útsendarar Iceland Express vottað að neysla þess hefur ótvíræðan sjarma. Það er eitthvað óformlegt og heimilislegt við cavað, sem mætti halda fram að endurspeglaði muninn á frönskum borgaralegheitum og lífsnautnum Miðjarðarhafsbúa.
Einn skemmtilegasti staðurinn til að kneifa ölið er líklega cavabarinn Xampanería nálægt höfninni í Born hverfi. Þrátt fyrir að hafa heimsótt staðinn alloft eru opnunartímar hans útsendurum Iceland Express ennþá hulin ráðgáta, enda virðast þeir lúta dularfullum kosmískum lögmálum. Ekki hjálpar til að gatan sem hann stendur við – Carrer de la Reina Christina – er lítil og þröng, og getur verið erfitt að ramba á hana.
Með cavanu – sem vel að merkja er á afar hagstæðu verði – er fram borið alls kyns meðlæti sem hægt er að skola niður með því á óformlegan hátt.
Ekki mjög langt frá Barcelonaborg gnæfir fjallið Montserrat yfir flatlendið, stórt með ljósbleikum tón eins og ekkert sé sjálfsagðara. Við erum kannski ekki að tala um Barböru Cartland-bleikan, en liturinn er meðal þess sem gerir fjallið sérsakt í jarðfræðilegu samhengi
Að komast að rótum Montserrat tekur um það bil klukkustund með bíl eða lest frá aðalbrautarstöð Barcelona. Þegar þangað er komið er hægt að taka kláf upp að klaustri Benediktínareglunnar, sem hefur komið sér fyrir á nokkuð dramatískum slóðum hátt upp í fjallshlíðinni.
Klaustrið er fyrir margar sakir merkilegt. Til dæmis er þar einn helgasti gripur katalónskra kaþólikka, dökkt Maríulíkneski frá seinni hluta 12. aldar sem ferðamenn og aðrir pílagrímar standa í langri biðröð til að snerta. Útsendarar Iceland Express hafa fyrir því heimildir að hefð sé fyrir því hjá Katalónum að nýfædd börn séu klædd sínum fyrstu skóm við fótskör Maríunnar.
Frá munkaklaustrinu taka þeir lötu annan kláf upp, en hinir ganga upp í rólegheitum eftir vel merktum stígum. Fjallið er um 1200 metra hátt og þaðan sést vítt til allra átta.